Sarpur | 13:01

Jóladagatal #19

19 Des

19. glugginn er svolítið sem ég hef verið að prófa og ætla að nota t.d. í innpökkun jólagjafa í ár; pappírsjólakúlur.

Það sem þarf er:

  • Litríkur pappír
  • Skæri (ég notaði reyndar skurðarhníf)
  • Gatari
  • Litlir stálpinnar sem notaðir eru til að festa pappírinn saman, keypti í föndurbúð en fást örugglega víðar.

Byrjað á því að klippa/skera pappírinn til. Ég prentaði út mynstur af netinu sem náði langsum yfir A4-síðu og prófaði annars vegar að klippa það í tvennt og þrennt, til að fá tvær mismunandi stærðir af kúlum.

Nota þarf 10-15 renninga af pappír. Þeir eru síðan gataðir með gataranum. Ég er með gatara sem gerir lítið gat og tekur ekki mjög mikið í einu þannig að ég varð að skipta bunkanum upp.

Síðan eru stálpinnarnir festir í gatið. Þeir eru klofnir í endann svo að hægt er að brjóta þá út og festa þannig pappírinn saman.

Svona lítur þá pappírsbunkinn út að aftan:

Þegar þetta er tilbúið er byrjað á því að snúa varlega við síðasta renningnum þannig að mynstrið snúi út.

Síðan er restinni snúið á sama hátt. Passið bara að festingin aftan á stálpinnanum rífi ekki pappírinn.

Mínar jólakúlur komu svona út: Sú minni varð þéttari og meiri kúla því að þar voru fleiri renningar, en sú stærri gisnari en samt svolítið flott.

Svo má festa bandspotta í kúlurnar og hengja t.d. á jólatréð eða festa á pakkann. Einnig er hægt að festa nokkrar saman og búa til óróa. Svo má auðvitað nota þær til annars skrauts; setja nokkrar saman í glæran vasa sem borðskraut t.d.

Hugmynd: M.a. héðan!